18.2.2010 | 23:37
Nýr mánuður og ný færsla
Sit uppi í rúmi, á gistiheimilinu Alba í Eskihlíðinni. Stakk af til Reykjavíkur í gær ásamt nemendum og tveimur samkennurum. Yndislegt að göslast í rútu í rúma fimm tíma, með langþráðu pylsustoppi í Staðarskála
Framundan er mjög svo spennandi árshátíð saumaklúbbsins. Hún verður haldin á Grettisgötunni á laugardagskvöldið og þemað er pallíettu-glitter. Ég ráfaði um Kringluna í dag og leitaði að pallíettusíðkjól á viðráðanlegu verði en fann barasta engann. En sé að það er um auðugan garð að gresja því það eru pallíettuföt allsstaðar. Mátaði þennan gasalega fína jakka sem var varla úr neinu öðru en pallíettum, gasalega lekkert.
Ég fæ grænar bólur þegar minnst er á svona þemapartý þar sem maður þarf að dressa sig upp sem eitthvað faboulous kvendi eða glamour eða eitthvað í þeim dúr. Er þema-félagsskítur. En ætla að reyna að taka þetta þema í bakaríið og finna mér síðkjól. Helst með 100 mismunandi litum pallíettum. Kannski er hægt að fá pallíettuskó líka? Og húfu?
Leit líka við í Seðlabankanum í morgun. Það var mjög hressandi. Merkilegt hvað Reykvíkingum finnst merkilegt að hitta Akureyringa, það er alltaf komið fram við okkur eins og við séum sérþjóðflokkur eða sýningardýr!
ding dong dei
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2010 | 17:23
Það er kominn föstudagur og það er vel
Dagarnir þjóta hjá á ógnarhraða. Janúar sem átti að vera ó svo kósí með rólegheitastundum og afslappelsi, hefur liðið hjá í annríki og asa. Próftíðin er oft notaleg, ég er yfirleitt með fá próf og get tekið mér góðan tíma í undirbúning vorannar. Sem veitir nú ekki af því vorönnin hjá mér er yfirleitt mun erfiðari en haustönnin og pensúmin á komandi önn eru fjögur. Námskrárvinnan hefur tekið yfir allar auðar stundir á vinnutíma og líka oft á kvöldin. Á mánudaginn byrjar ný önn og valáfanginn minn spennandi, sem ég ætlaði að gera ógeðslega flottann og skemmtilegan, er bara rétt að byrja að mótast. Áfangalýsingin er svosem að verða klár en enn á ég eftir að undirbúa og lesa svo ógnarmikið.
Kennarar geta verið paranaujaðir og ég er búin að vera að leita að glósum í faginu sem ég er að fara að kenna. Oft er það þannig að nemendur fylgjast ekkert með þegar kennarinn er með innlögn því þeir hafa nælt sér í ítarlega glósupakka einhversstaðar á netinu. Fann nú ekki glósupakka fyrir afbrotafræðina en fann þessa síðu: http://www.cheater.com/
Ja hjarna hjar segi ég nú bara.
Kuldaboli er mættur á ný, fór á hundasvæðið í gær með Týruljúflinginn og skalf úr kulda í norðangarranum. Datt svo næstum því á hausinn í dag, svona tíu sinnum. Fór í klippingu og kom nánast grátandi út, var svo hræðilega óánægð. Ég lít út eins og fimm ára karlmaður með koppaklippingu. Æðislegt. Þori varla að láta sjá mig utanhúss.
En stígvélin sem ég keypti í gær bæta þetta allt saman upp og svo er planið að blóta þorra á laugardaginn. Tók smá upphitun í gærkvöldi og fór út með nokkrum útvöldum vinnufélögum. Mojito stendur alltaf fyrir sínu en djöfulli er hægt að rukka mikið fyrir einn nánast áfengislausan drykk!
Ding Dong Dei!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.1.2010 | 14:54
Afmæli
Í gær fögnuðum við afi 118 ára afmæli okkar. Aðallega var nú afi samt að fagna sínu níræðisafmæli. Hann hélt þessa svaka veislu sem við afkomendur sáum um. Þetta var hefðbundinn afmælisfagnaður hjá þeim gamla að því leyti að boðið var upp á þorramat og brennivín en óhefðbundið að því leyti að um 100 manns mættu til að fagna með honum árunum níutíu.
Við KB systir og Ondi frændi sáum um skipulagið og svo hjálpuðust allir að í veislunni til að allt gengi nú smurt. Sem það gerði og þetta var æðislegt kvöld. Langafastelpurnar Aldís og Rannveig byrjuðu á því að spila og syngja afmælislagið. Svo voru þær klappaðar upp og þá tóku þær nýja útgáfu við lagið afi minn og amma mín. Þetta vakti mikla lukku og ekki voru þær frænkur vitundarögn smeykar við að skemma fyrir framan allan þennan fjölda.
Rúsínan í pylsuendanum var þegar afmælisgjöfin frá afkomendum hans birtist, sjálf Helena Eyjólfsdóttir ásamt píanista. Hún er yndisleg hún Helena, kom og söng nokkur lög og sló heldur betur í gegn. Þetta voru einu mínúturnar í veislunni sem einkasonur minn var kyrr, hann skreið upp í fangið á nafna sínum og kúrði þar og hlustaði á hvíta máva og á skíðum skemmti ég mér og fleiri lög :)
Þetta var yndislegt kvöld og okkur þótti svo vænt um að sjá svona marga í veislunni, sérstaklega var gaman hversu margir gerðu sér ferð um langan veg til að mæta í afmælið.
V
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.1.2010 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2010 | 20:36
alli.r@kaupthing.is
Ég skil ekki af hverju tölvupóstforrit eru ekki með þeim fítusi að geta gert CANCEL, ef maður gerir mistök í póstsendingum! Ég fékk póst í dag sem ég átti ekki að fá og gat alveg fundið hnútinn í maganum á þeim sem sendi póstinn. Um voru að ræða "viðkvæmar trúnaðarupplýsingar". Las ekki póstinn - enda stóð "Sæl xxxxx" svo ég sá strax að þetta var ekki til mín. En það voru miklu fleiri sem fengu póstinn og örugglega einhverjir opnað.
Ég er oft að hugsa um þetta í vinnunni, er farin að sýna ýtrustu varkárni áður en ég ýti á send. Bíð líka yfirleitt í 10 mínútur með að svara tölvupóstum sem mann langar að svara strax í einhverjum æsingi... Maður veit aldrei hvort póstur sem maður sendir er áframsendur eitthvert annað, hvort einhver sýnir hann, hvort hann lendir hjá röngum aðilum eða maður einfaldlega sendir á allir í staðinn fyrir alli.r.
Ég vil fá þennan fítus. Í þessu tilfelli í dag uppgötvaðist þetta nánast um leið og þá hefði viðkomandi getað "cancelað" póstinum og pósturinn horfið úr pósthólfum þeirra sem ekki áttu að fá hann. Þetta var víst til í einhverju póstforriti fyrir nokkrum árum en ekki lengur - held ég.
V
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2010 | 22:57
Eldamennska
Í kvöld erum við hjónin búin að fara í gegnum tvær matreiðslubækur og skella post-it miðum á fjöldamarga rétti sem við ætlum að elda á næstu mánuðum. Mikið er gaman að sameinast um eitthvað svona, virkilega góð stund, quality time í hjónalífinu ;)
Og framundan eru spennandi eldhústímar saman, marókkó kjúlli, afrískur grænmetispottréttur, alls kyns fiskréttir, svepparisotto og svo framvegis.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2010 | 22:02
Úthreinsun og veikindi
Kannski ekki eins hræðilegt og það hljómar. Húsbóndinn á heimilinu er aldeilis uppátækjasamur þessa dagana. Hann tók upp á því á þriðjudaginn að hætta að borða allt nema grænmeti og ávexti. Ætlunin var að "fasta" í alls þrjár vikur, grænmeti og ávextir í eina viku, vatn í eina og svo aftur grænmeti og ávexti til að borða sig upp aftur. Eftir þrjá daga af því góða ákvað hann að breyta aðeins um stefnu og keypti safakúr í Heilsuhúsinu.
Við erum að tala um manninn sem fær sér iðulega egg og beikon í morgunverð á sunnudögum. Ég hafði litla trú á honum og taldi víst að hann héldi aðeins út í sex klukkustundir. Dóttirin bætti um betur og sagði að hann gæti þetta í einn dag. Hann hefur með þessu sýnt þvílíka staðfestu og dugnað, ætli hann eigi ekki skilinn tvöfaldan beikonskammt um næstu helgi.
Þessi safar eru náttúrulega bara viðbjóður og það sem verra er, maðurinn keypti einn skammt handa mér líka. Veit ekki hvað í andskotanum ég er búin að láta plata mig út í.
Og sonurinn orðinn veikur!
over and out!
V
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2010 | 09:13
Ólafur Ragnar stendur sig vel
5. janúar var dagurinn. Allt logaði á vinnustöðum og í fjölmiðlum og þar sýndu margir Íslendingar sama viðhorf og afstöðu og ríkisstjórn okkar hefur gert undanfarna mánuði. Hræðsluáróðurinn sem beitt hefur verið hér undanfarið hafði skilað árangri og Íslendingar voru hræddir og vildu bara að þessi lög yrðu samþykkt og forsetinn undirritaði þau möglunarlaust. Æ borgum bara.
Þarna var um að ræða gríðarlegar upphæðir sem skyldu leggjast á íslenska skattborgara. Lélegur samningur með 5,5% vöxtum, upphæðin skyldi greidd að fullu sama hversu langan tíma það tæki og það sem meira var, okkar réttur til að endurskoða samninginn ef nýjar upplýsingar kæmu fram, var hafður að engu. Jújú samþykkjum þetta bara og borgum. Klárum málið (eins og samþykkt laganna væri að klára málið, það átti jú eftir að borga alla upphæðina, næstu áratugi...)
Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi og virtur hagfræðingur, kom hingað til lands sl. haust. Mér er minnisstætt þegar hann talaði um hræðsluáróðurinn í samtali sínu við Egil Helgason. Hann hafði rétt fyrir sér. Eins og um 25% þjóðarinnar sem skrifaði nafn sitt á indefence og fékk þar með forsetann okkar til að taka djarfa og aðdáunarverða ákvörðun fyrir íslensku þjóðina. Stiglitz talaði um markvissan hræðsluáróður sem IMF, Hollendingar og Bretar beittu okkur. Ef þið semjið ekki við okkur á okkar skilmálum þá gerist eitthvað hræðilegt. IMF hættir að styðja ykkur og enginn vill lána ykkur eða tala við ykkur, versla við ykkur og guð má vita hvað. Þessu trúði ríkisstjórnin og þessu trúðu margir Íslendingar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekkert nema löndin sem honum stjórna. Og þar fara framarlega í flokki UK og Holland. IMF er ekki góðgerðarstofnun frekar en Alþjóðabankinn, það eru hagsmunir sem ráða.
Hvað svo sem má segja um forsetann okkar þá er ég ánægð með hann núna. Hann hefur tekið hlutverk sitt alvarlega sem málsvari Íslendinga, talar máli okkar erlendis og er vel undirbúinn og hefur staðið sig gríðarlega vel í þeim viðtölum sem hann hefur farið í. Umræða fjölmiðla og afstaða almennings erlendis, ekki síst í Hollandi og Bretlandi, hefur verið okkur í hag. Kanónan Eva Joly talar máli okkar og á hana er hlustað. Við verðum að halda áfram á sömu braut og verja hagsmuni Íslendinga út á við. Sýna samstöðu og hætta að tala máli Breta og Hollendinga. Fjármálaráðherra hefur að því er virðist tileinkað sér þetta viðhorf og stendur sig vel.
5. janúar sagði ég fátt. Var ekki viss um hvort ég ætti að þora að segja frá því að hafa skrifað undir á indefence og hlustaði á heiftúðlegar umræður um forseta vorn og ákvörðun hans, sem myndi steypa þjóðinni í glötun um ókomna tíð...í mínu nánasta umhverfi var ég sú eina sem var ánægð með ákvörðun forsetans. Svolítið skelkuð- en ánægð, meðan vinnufélagarnir töluðu um stjórnarkreppu, tafir á björgunarstarfi, útskúfun frá alþjóðasamfélaginu o.s.frv.
Ísland hefur öðlast virðingu út á við fyrir hugrekki sitt og þrautseigju og loksins eru ráðamenn farnir að tala máli okkar erlendis, í staðinn fyrir að lúta höfði í skömm yfir hruni íslenska fjármálakerfisins og ganga sneyptir að samningaborðinu...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2010 | 23:19
Afmæli
Á morgun koma nokkrir átta ára grísir í níu ára afmæli frumburðarins. Hún hefur sterkar skoðanir á veislunni sinni eins og flestu öðru - það skal vera afmæliskaka sem lítur út eins og píanónótur, það skal vera rice crispies kökur, ávextir og pizza og svo er alltof barnalegt að vera með einhverja plastdiska. Planið er að fara í heimatilbúið Alias í léttari kantinum, borða á sig gat og leika sér svolítið.
Fyrir afmælið þurfti að taka herbergið hennar í gegn og breyta uppröðun á húsgögnunum. Já, það stendur sko mikið til!
Húsbóndinn fór í dag á útsölur og náði að kaupa tvennar Levi´s gallabuxur á 10 mínútum! Þær voru á 50% afslætti svo hann gerði góð kaup. Ég væri til í að geta skroppið á útsölur í 10 mínútur og komið heim með svona góðan feng!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2010 | 11:37
Áfram Lára!
Mikið er ég skotin í Surprise Láru! Feel good diskur með skemmtilegum textum og miklum karakter. Mæli með honum.
Mia
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2010 | 23:44
Meira hvað þetta lýðræði er mikið vesen
Ég er ekki viss um að ég treysti mér til að kjósa í næstu alþingiskosningum. Það er svo gríðarlega mikil og tímafrek vinna að fara í gegnum allar þær upplýsingar sem þarf að fara í gegnum til að geta tekið upplýsta og vel rökstudda ákvörðun. Það þarf að fara vel og vandlega yfir stefnuskrá nokkurra stjórnmálaflokka. Gefum okkur að þeir séu sex. Það þýðir 120 frambjóðendur sem maður þarf að vega og meta. Hvernig munu þeir bregðast við hinum ýmsu málum sem kunna að koma upp, ætli þeir séu trúverðugir? Maður þarf að sjálfsögðu að googla þá og kíkja á Íslendingabók, krosseignatengsl og svo framvegis, til að geta tekið afstöðu hvort þeim sé treystandi. Menntun og fyrri störf skipta að sjálfsögðu máli og svo félagsstörf og fjölskyldustaða.
Ég er að spá í að taka mér frí frá vinnu í mánuð fyrir næstu kosningar til að geta tekið upplýsta afstöðu, þetta er svo mikil vinna. Geta mennirnir ekki bara ákveðið þetta sjálfir svo þjóðin þurfi ekki að standa í svona helvítis brasi?
over and out
Mia