Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.1.2010 | 09:13
Ólafur Ragnar stendur sig vel
5. janúar var dagurinn. Allt logaði á vinnustöðum og í fjölmiðlum og þar sýndu margir Íslendingar sama viðhorf og afstöðu og ríkisstjórn okkar hefur gert undanfarna mánuði. Hræðsluáróðurinn sem beitt hefur verið hér undanfarið hafði skilað árangri og Íslendingar voru hræddir og vildu bara að þessi lög yrðu samþykkt og forsetinn undirritaði þau möglunarlaust. Æ borgum bara.
Þarna var um að ræða gríðarlegar upphæðir sem skyldu leggjast á íslenska skattborgara. Lélegur samningur með 5,5% vöxtum, upphæðin skyldi greidd að fullu sama hversu langan tíma það tæki og það sem meira var, okkar réttur til að endurskoða samninginn ef nýjar upplýsingar kæmu fram, var hafður að engu. Jújú samþykkjum þetta bara og borgum. Klárum málið (eins og samþykkt laganna væri að klára málið, það átti jú eftir að borga alla upphæðina, næstu áratugi...)
Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi og virtur hagfræðingur, kom hingað til lands sl. haust. Mér er minnisstætt þegar hann talaði um hræðsluáróðurinn í samtali sínu við Egil Helgason. Hann hafði rétt fyrir sér. Eins og um 25% þjóðarinnar sem skrifaði nafn sitt á indefence og fékk þar með forsetann okkar til að taka djarfa og aðdáunarverða ákvörðun fyrir íslensku þjóðina. Stiglitz talaði um markvissan hræðsluáróður sem IMF, Hollendingar og Bretar beittu okkur. Ef þið semjið ekki við okkur á okkar skilmálum þá gerist eitthvað hræðilegt. IMF hættir að styðja ykkur og enginn vill lána ykkur eða tala við ykkur, versla við ykkur og guð má vita hvað. Þessu trúði ríkisstjórnin og þessu trúðu margir Íslendingar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekkert nema löndin sem honum stjórna. Og þar fara framarlega í flokki UK og Holland. IMF er ekki góðgerðarstofnun frekar en Alþjóðabankinn, það eru hagsmunir sem ráða.
Hvað svo sem má segja um forsetann okkar þá er ég ánægð með hann núna. Hann hefur tekið hlutverk sitt alvarlega sem málsvari Íslendinga, talar máli okkar erlendis og er vel undirbúinn og hefur staðið sig gríðarlega vel í þeim viðtölum sem hann hefur farið í. Umræða fjölmiðla og afstaða almennings erlendis, ekki síst í Hollandi og Bretlandi, hefur verið okkur í hag. Kanónan Eva Joly talar máli okkar og á hana er hlustað. Við verðum að halda áfram á sömu braut og verja hagsmuni Íslendinga út á við. Sýna samstöðu og hætta að tala máli Breta og Hollendinga. Fjármálaráðherra hefur að því er virðist tileinkað sér þetta viðhorf og stendur sig vel.
5. janúar sagði ég fátt. Var ekki viss um hvort ég ætti að þora að segja frá því að hafa skrifað undir á indefence og hlustaði á heiftúðlegar umræður um forseta vorn og ákvörðun hans, sem myndi steypa þjóðinni í glötun um ókomna tíð...í mínu nánasta umhverfi var ég sú eina sem var ánægð með ákvörðun forsetans. Svolítið skelkuð- en ánægð, meðan vinnufélagarnir töluðu um stjórnarkreppu, tafir á björgunarstarfi, útskúfun frá alþjóðasamfélaginu o.s.frv.
Ísland hefur öðlast virðingu út á við fyrir hugrekki sitt og þrautseigju og loksins eru ráðamenn farnir að tala máli okkar erlendis, í staðinn fyrir að lúta höfði í skömm yfir hruni íslenska fjármálakerfisins og ganga sneyptir að samningaborðinu...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2010 | 23:44
Meira hvað þetta lýðræði er mikið vesen
Ég er ekki viss um að ég treysti mér til að kjósa í næstu alþingiskosningum. Það er svo gríðarlega mikil og tímafrek vinna að fara í gegnum allar þær upplýsingar sem þarf að fara í gegnum til að geta tekið upplýsta og vel rökstudda ákvörðun. Það þarf að fara vel og vandlega yfir stefnuskrá nokkurra stjórnmálaflokka. Gefum okkur að þeir séu sex. Það þýðir 120 frambjóðendur sem maður þarf að vega og meta. Hvernig munu þeir bregðast við hinum ýmsu málum sem kunna að koma upp, ætli þeir séu trúverðugir? Maður þarf að sjálfsögðu að googla þá og kíkja á Íslendingabók, krosseignatengsl og svo framvegis, til að geta tekið afstöðu hvort þeim sé treystandi. Menntun og fyrri störf skipta að sjálfsögðu máli og svo félagsstörf og fjölskyldustaða.
Ég er að spá í að taka mér frí frá vinnu í mánuð fyrir næstu kosningar til að geta tekið upplýsta afstöðu, þetta er svo mikil vinna. Geta mennirnir ekki bara ákveðið þetta sjálfir svo þjóðin þurfi ekki að standa í svona helvítis brasi?
over and out
Mia