Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
24.1.2010 | 14:54
Afmæli
Í gær fögnuðum við afi 118 ára afmæli okkar. Aðallega var nú afi samt að fagna sínu níræðisafmæli. Hann hélt þessa svaka veislu sem við afkomendur sáum um. Þetta var hefðbundinn afmælisfagnaður hjá þeim gamla að því leyti að boðið var upp á þorramat og brennivín en óhefðbundið að því leyti að um 100 manns mættu til að fagna með honum árunum níutíu.
Við KB systir og Ondi frændi sáum um skipulagið og svo hjálpuðust allir að í veislunni til að allt gengi nú smurt. Sem það gerði og þetta var æðislegt kvöld. Langafastelpurnar Aldís og Rannveig byrjuðu á því að spila og syngja afmælislagið. Svo voru þær klappaðar upp og þá tóku þær nýja útgáfu við lagið afi minn og amma mín. Þetta vakti mikla lukku og ekki voru þær frænkur vitundarögn smeykar við að skemma fyrir framan allan þennan fjölda.
Rúsínan í pylsuendanum var þegar afmælisgjöfin frá afkomendum hans birtist, sjálf Helena Eyjólfsdóttir ásamt píanista. Hún er yndisleg hún Helena, kom og söng nokkur lög og sló heldur betur í gegn. Þetta voru einu mínúturnar í veislunni sem einkasonur minn var kyrr, hann skreið upp í fangið á nafna sínum og kúrði þar og hlustaði á hvíta máva og á skíðum skemmti ég mér og fleiri lög :)
Þetta var yndislegt kvöld og okkur þótti svo vænt um að sjá svona marga í veislunni, sérstaklega var gaman hversu margir gerðu sér ferð um langan veg til að mæta í afmælið.
V
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.1.2010 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2010 | 22:02
Úthreinsun og veikindi
Kannski ekki eins hræðilegt og það hljómar. Húsbóndinn á heimilinu er aldeilis uppátækjasamur þessa dagana. Hann tók upp á því á þriðjudaginn að hætta að borða allt nema grænmeti og ávexti. Ætlunin var að "fasta" í alls þrjár vikur, grænmeti og ávextir í eina viku, vatn í eina og svo aftur grænmeti og ávexti til að borða sig upp aftur. Eftir þrjá daga af því góða ákvað hann að breyta aðeins um stefnu og keypti safakúr í Heilsuhúsinu.
Við erum að tala um manninn sem fær sér iðulega egg og beikon í morgunverð á sunnudögum. Ég hafði litla trú á honum og taldi víst að hann héldi aðeins út í sex klukkustundir. Dóttirin bætti um betur og sagði að hann gæti þetta í einn dag. Hann hefur með þessu sýnt þvílíka staðfestu og dugnað, ætli hann eigi ekki skilinn tvöfaldan beikonskammt um næstu helgi.
Þessi safar eru náttúrulega bara viðbjóður og það sem verra er, maðurinn keypti einn skammt handa mér líka. Veit ekki hvað í andskotanum ég er búin að láta plata mig út í.
Og sonurinn orðinn veikur!
over and out!
V
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)